18 Október 2012 12:00

Það var heldur undarleg sjón sem blasti við ökumanni á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í morgun. Viðkomandi var að bíða eftir grænu ljósi til að geta haldið för sinni áfram þegar honum var litið inn í bílinn við hliðina. Í ökumannssætinu var karl um þrítugt og í aftursæti bifreiðarinnar var barn. Bæði ökumaðurinn og barnið voru með viðeigandi öryggisbúnað og því ekkert út á það að setja, en það var hins vegar hátterni ökumannsins sem vakti athygli. Sá virðist hafa verið eitthvað seinn fyrir því maðurinn var að borða graut undir stýri að sögn þess sem tilkynnti málið til lögreglu, en fullyrt var að um  hafragraut hafi verið að ræða. Það er að sjálfsögðu ekki lögbrot að borða hafragraut enda er hann bæði hollur og góður, en betra er að gera það í eldhúsinu heima eða á kaffistofunni í vinnunni. Sama gildir um flest annað enda eiga ökumenn að hafa hugann við aksturinn þegar út í umferðina er komið. Þess má geta að samkvæmt upplýsingum lögreglu var hinn svangi ökumaður með hafragrautinn í einhverskonar skál og notaði síðan skeið til að skófla honum upp í sig. Það má líka koma fram að hinn sami hélt áfram að borða grautinn sinn eftir að græna ljósið kviknaði og því átti borðhaldið sér einnig stað meðan á akstrinum stóð. Skráningarnúmer bílsins fylgdi ekki með tilkynningunni og því hefur lögreglan ekki náð að ræða við manninn með hafragrautinn. Lesi hann hins vegar þetta er maðurinn beðinn um að láta svona atvik ekki endurtaka sig enda getur það skapað hættu í umferðinni.