21 Janúar 2016 13:57

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir desembermánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 664 tilkynningar um hegningarlagabrot í desember, sem gerir um 21 tilkynningu á dag. Á heildina litið er fjöldi brotanna svipaðar og í nóvember, en nokkuð minni ef miðað er við síðustu mánuði þar áður. Tilkynningum um flest brot fækkar miðað við meðalfjölda brota síðustu þriggja mánaða á undan. Þar af fækkar tilkynningum um innbrot á heimili, þjófnaði og kynferðisbrot hlutfallslega mest. Tilkynntum kynferðisbrotum hefur stöðugt fækkað frá því í júlí, en ekki hafa borist eins fáar tilkynningar í einum mánuði frá því í febrúar 2014. Hlutfallslega fjölgar mest tilvikum þar sem lögreglumaður er beittur ofbeldi miðað við meðalfjölda tilvika síðustu þriggja mánaða á undan. Eins fjölgaði brotum þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ölvunar við akstur í desember samanborið við meðaltal síðustu þriggja mánaða.