16 Október 2018 14:58

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir septembermánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 736 tilkynningar um hegningarlagabrot í september, tilkynningum fækkaði miðað við fjölda þeirra síðustu mánuði á undan. Í september fækkaði tilkynntum kynferðisbrotum umtalsvert. Lögreglunni bárust sjö slíkar tilkynningar í september sem gerir um 70 prósent færri tilkynningar en bárust að meðaltali síðustu 12 mánuði á undan. Ekki hafa borist jafn fáar tilkynningar um kynferðisbrot á einum mánuði síðan í febrúar árið 2014. Nytjastuldum fækkaði einnig nokkuð á höfðuborgarsvæðinu, tilkynnt var um 17 nytjastuldi í september en tilkynningarnar hafa að meðaltali verið um 31 á mánuði sl. 12 mánuði. Innbrotum fjölgaði hins vegar í september og þá sérstaklega innbrotum á heimili. Lögreglunni bárust 97 tilkynningar um innbrot í september, þar af 40 á heimili. Hefur tilkynntum innbrotum fjölgað um 13 prósent miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða og innbrotum á heimili fjölgaði um 15 prósent miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða á undan.