23 Ágúst 2016 14:41

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir júlímánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 Í júlí voru skráðar 688 tilkynningar um hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu, sem er fjölgun á milli mánaða. Lögreglunni bárust 306 tilkynningar um þjófnaði sem gerir um 44 prósent allra tilkynntra hegningarlagabrota í júlí. Er þetta svipaður fjöldi tilkynninga og síðustu tvo mánuði á undan. Tilkynnt var um 27 kynferðisbrot sem áttu sér stað í júlímánuði. Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í einum mánuði síðan í ágúst 2013. Þar af bárust 15 tilkynningar vegna nauðgana og sjö vegna blygðunarsemisbrota. Það sem af er ári hafa tilkynningar um kynferðisbrot þó verið um 13 prósent færri miðað við meðalfjölda fyrir sama tímabil árin 2013 til 2015.