17 Janúar 2007 12:00

Eldur kviknaði í bílskúr í Breiðholti síðdegis í gær en þar var 18 ára piltur að setja bensín á fjórhjól. Pilturinn var jafnframt að reykja sígarettu en það er talin ástæða þess að svona fór.  Eitthvað af eldsneytinu fór á gólfið og þegar á það féll glóð úr sígarettunni kviknaði eldur. Pilturinn reyndi að slökkva eldinn með vatnsslöngu en það dugði skammt. Þá opnaði hann litla hurð á bílskúrnum en við það varð sprenging. Eldurinn náði samt hvorki að magnast né breiðast út og var slökktur snarlega með góðra manna hjálp. Þótt ótrúlegt megi virðast sakaði piltinn lítið sem ekkert en hann má teljast heppinn því þarna hefði sannarlega getað farið illa.

Þetta dæmi sýnir að það er aldrei of varlega farið en á mánudag brenndist fertugur karlmaður á höndum og í andliti. Sá var að gera við bensínleka í bifreið í Grafarvogi en hafði gert hlé á vinnu sinni til að fá sér sígarettu. Þegar maðurinn drap í sígarettunni mynduðust bensíngufur og sprenging varð með fyrrgreindum afleiðingum.