19 September 2006 12:00

Tæplega tvítugur maður brenndist á hendi í austurborginni í gærkvöld. Maðurinn var að setja bensín á kveikjara þegar óhappið varð en við það kviknaði jafnframt í geymslu þar sem maðurinn var staddur. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en þó urðu nokkrar skemmdir í geymslunni. Íbúð er við hlið geymslunnar en ofan við hana er bílskúr. Íbúðin slapp að mestu við reykinn en einhverjar reykskemmdir urðu í bílskúrnum.

Annars var síðasti sólarhringur með rólegra móti hjá lögreglunni í Reykjavík og það verða að teljast góðar fréttir. Tiltölulega fáir voru teknir fyrir hraðakstur og einn var sekur um ölvunarakstur. Þá stöðvaði lögreglan fertugan ökumann í gær en sá hefur aldrei tekið bílpróf. Honum var samstundis gert að hætta akstri. Sama var gert við 18 ára pilt sem varð á vegi lögreglunnar. Hann var í sumar sviptur ökuréttindum til nokkurra mánaða en hefur greinilega ekki látið sér segjast.

Töluvert er um að óskilamunum sé komið til lögreglunnar. Bara í gær fékk lögreglan fimm reiðhjól í sína vörslu en þau höfðu fundist víðsvegar um borgina. Fólk er eindregið hvatt til að skrá hjá sér svokölluð raðnúmer þegar það eignast nýja hluti. Með því móti er auðvelt að færa sönnur fyrir eignarhaldi ef hlutir týnast. Óskilamunadeild lögreglunnar er í Borgartúni 7 og þar er opið virka daga.