8 Apríl 2013 12:00

Laugardalurinn er einn þeirra staða þar sem misvel hefur gengið að fá ökumenn til að nýta þau bílastæði sem þar eru og þá um leið að leggja ökutækjum sínum löglega. Reglulega hafa borist fréttir af afskiptum lögreglu af ökutækjum á einmitt þessu svæði, en fyrir skömmu var 100 bílum lagt ólöglega í og við Laugardalshöll, líkt og greint var frá í fjölmiðlum. Í gær brá hins vegar svo við að þeir ökumenn sem lögðu leið sín í Laugardalshöll til að horfa á leik Íslands og Slóveníu í undankeppni EM í handbolta voru allir til fyrirmyndar. Áhorfendur á leiknum voru um 2500 og bílafjöldinn í samræmi við það, en engu ökutæki var lagt ólöglega á meðan leikurinn fór fram. Ástæða er til að hrósa ökumönnum fyrir þessa góðu frammistöðu og vonandi verður framhald þar á, ekki bara í Laugardalnum heldur í umdæminu öllu.