10 Júlí 2006 12:00

Lögreglumenn í Reykjavík höfðu í  nógu að snúast um  helgina. Mikil áhersla var lögð á umferðareftirlit og voru 44 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur. Ökumaður á nítjánda ári var mældur á 169 km hraða á Vesturlandsvegi og á Suðurlandsvegi var ástandið litlu skárra. Þar hafði lögreglan afskipti af ökumanni sem ók á 162 km hraða. Sá hinn sami reyndist einnig vera með útrunnið ökuskírteini. Þá voru 15 ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur. 

Lögreglan hefur einnig fylgst með bílbeltanotkun og það er ljóst að allmargir ökumenn verða að taka sig á í þeim efnum. Sama gildir um farsíma. Það er með öllu óheimilt að tala í síma undir stýri í umferðinni. Þeir sem það gera verða undantekningarlaust að notast við handfrjálsan búnað. Ökumenn sem virða ekki reglur um bílbelti og símanotkun mega búast við sektum.

Lögreglan sinnti mörgum öðrum verkefnum um helgina en eitthvað var um pústra. Þá bárust kvartanir vegna hávaða í heimahúsum og skemmdir voru unnir í miðborginni. Mesti erillinn var aðfaranótt laugardags en á sunnudagskvöld var framið rán í verslun í Þingholtunum. Þrátt fyrir það sem hér er nefnt er lögreglan þokkalega sátt með nýliðna helgi. Munar þar mestu að umferðin gekk almennt vel og engin alvarleg slys urðu á fólki.