2 Maí 2007 12:00

Nokkru færri umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku en á sama tímabili í fyrra, þ.e. sautjándu viku ársins. Í ár voru þau 142 en 157 árið 2006. Þetta er 10% fækkun en alþjóðleg umferðaröryggisvika var einmitt haldin hérlendis í síðustu viku. Hún kann að skýra þessu fækkun óhappa að einhverju leyti en umferðarmál voru mjög áberandi í fjölmiðlum umrædda daga.

Einnig er athyglisvert að skoða slys á fólki í þessum óhöppum fyrrnefnda daga. Í 142 umferðaróhöppum í ár var tilkynnt um slys á fólki í 12 tilfellum, eða 8% tilvika. Í sautjándu viku ársins 2006 var tilkynnt um slys á fólki í 27 tilfellum, eða 17% tilvika. Þetta er ánægjuleg þróun en sé litið til áranna 2005 og 2004 sést glögglega að við eigum enn nokkuð langt í land með að draga úr umferðaróhöppum. Á sama tímabili 2005 var 121 umferðaróhapp tilkynnt á höfuðborgarsvæðinu og 123 árið 2004.