18 Desember 2018 08:32

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

 

Alls bárust 720 tilkynningar um hegningarlagabrot í nóvember. Heilt yfir fækkaði tilkynningum í þeim brotaflokkum sem teknir eru fyrir í þessari skýrslu miðað við fjölda síðustu sex mánuði á undan. Til að mynda fækkaði tilkynningum um þjófnaði, ofbeldisbrot, eignaspjöll, umferðarlagabrot og færri voru teknir við akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hins vegar fjölgaði innbrotum í nóvember og þar af fjölgaði innbrotum á heimili og ökutæki mikið. Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um innbrot á einum mánuði frá því í október 2011. Fjölgunin skýrist að einhverju leiti af fleiri tilkynningum um innbrotum í geymslur og bílskúra. Einnig hafa fleiri tilkynningar borist um innbrot inn á heimili. Í byrjun desember varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því að mögulega væri erlendur brotahópur kominn hingað til lands  gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn. Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112.