15 Febrúar 2018 14:58

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir janúarmánuð 2018 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Skráð voru 711 hegningarlagabrot í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í janúar sl. Hegningarlagabrotum fækkaði miðað við meðalfjölda síðastliðna 12 mánuði á undan. Í janúar fjölgaði skráðum brotum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi. Eignarspjöllum og akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgaði einnig. Skráðum þjófnaðarbrotum fækkaði hins vegar sem og ofbeldisbrotum og fíkniefnabrotum. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 35 tilkynningar um innbrot á heimili í janúar, eru það aðeins fleiri tilkynningar en bárust að meðaltali síðustu 12 mánuði á undan (meðaltalið var 32 tilkynningar). Breytingin frá fyrri mánuðum er sú að mörg þeirra innbrota sem hafa verið tilkynnt sl. tvo og hálfan mánuð hafa verið álík í því hvernig er brotist inn og hverju er stolið. Því vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðla til almennings að vera á varðbergi og láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir. Einnig er gott að skrifa hjá sér upplýsingar, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi. Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan vill ennfremur minna á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum til lengri tíma þegar það fer að heiman og ekki er úr vegi að tilkynna nágrönnum um slíkt, en nágrannavarsla getur skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sérstaklega er minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, bæði baka við hús og að framanverðu. Slíkt einfaldar nágrönnum að sjá umferð/mannaferðir við húsin.

Upplýsingum má koma á framfæri í síma 444-1000, með einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna yfirstandandi innbrots skal undantekningarlaust hringja í 112.