14 Júní 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun á tveimur stöðum í umdæminu í gær og fyrradag og lagði hald á nokkra tugi kannabisplantna. Á öðrum staðnum var um að ræða ræktun í iðnaðarhúsnæði en í hinu tilvikinu var kannabisræktunin í íbúð í fjölbýlishúsi. Þar kom kona til dyra þegar lögreglan bankaði upp á en börn búa einnig á heimilinu. Í hjónaherbergi íbúðarinnar hafði karlmaður falið sig inni í fataskáp en sá sagðist hafa verið staddur í íbúðinni fyrir tilviljun og væri kannabisræktunin honum með öllu óviðkomandi.
Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.