23 Nóvember 2016 16:12

Falsaðir 10000 krónu seðlar voru notaðir til að greiða fyrir veitingar á matsölustað í miðborginni í síðustu viku, en málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Fyrr í mánuðinum kom annað slíkt mál á borð lögreglu, en þá var karl handtekinn eftir að hafa ætlað að greiða fyrir viðskipti á bensínstöð í austurborginni með fölsuðum 10000 króna seðli. Þar leiddi árverkni starfsmanns til handtökunnar.

Lögreglan beinir þeim tilmælum til afgreiðslufólks að vera á varðbergi vegna þessa og hvetur jafnframt til þess að þeir sem eru í afgreiðslustörfum kynni sér helstu öryggisþætti íslenskra peningaseðla á heimasíðu Seðlabanka Íslands, en með þær upplýsingar að leiðarljósi á að vera auðvelt að greina á milli falsaðra og ófalsaðra peningaseðla. Ef fólk verður vart við falsaðan seðil skal kalla til lögreglu í gegnum 112.

http://www.sedlabanki.is/fjarmalainnvidir/sedlar-og-mynt/sedlar-i-gildi/