27 Janúar 2021 16:32
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið nokkur ný mál til rannsóknar á stuttum tíma þar sem verið er að nota falsaða 5000 kr. seðla. Fölsunin er ekki vönduð en gæti þó náð að blekkja grandalausa. Prentunin er þokkaleg og búið að krumpa seðlana til til að gera þá eðlilegri í viðkomu. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 segir m.a. um peningafals og önnur brot, er varða gjaldmiðil:
„Hver, sem falsar peninga í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri, svo og hver sá, sem í sama skyni aflar sér eða öðrum falsaðra peninga, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.“ (150. gr.) Almenn hegningarlög 19/1940
Seðlana má auðveldlega þekkja af því að á þá vantar nánast alla öryggisþætti. Þeir sem eru að dreifa seðlunum reyna að gera það mest í verslunum, eins og bensínstöðvum, sjoppum, kaffihúsum eða hvers kyns verslunum. En það hafa líka komið upp önnur dæmi eins og einstaklingar sem eru að selja notaðar vörur eins og síma á netinu.
Svona mál koma upp af og til en núna er áberandi meira umfang og skipulag. Biðlum við því til fólks að kynna sér hvernig þekkja má alvöru seðla frá fölsuðum og viljum líka benda á að það má kaupa penna í ritfangavöruverslunum sem skrifa má með á peninga og ef það kemur litur þá er seðillinn falsaður. Þessa penna má líka nota á erlenda seðla.
Þó að það séu 5.000 kr. seðlar sem við erum að sjá mest af þá biðjum við fólk einnig um að vera á varðbergi með aðrar seðlastærðir sem og erlenda seðla. Það hafa komið upp mál þar sem erlendir seðlar eru falsaðir.
„Það varðar sektum að búa til, flytja inn eða dreifa út meðal manna hlutum, sem að gerð og frágangi líkjast mjög peningum eða verðbréfum, sem ætluð eru til þess að ganga manna á milli.“ (153. gr.) Almenn hegningarlög 19/1940