9 Mars 2006 12:00

Nú er að ljúka hinum árlegu fræðslu – og skemmtiferðum eldri borgara sem Lögreglan í Reykjavík stendur fyrir. Gaman er að segja frá því að þessar ferðir hafa verið farnar í um tvo áratugi með mismunandi sniði en nýr áfangastaður hefur verið valinn á hverju ári. Þátttakendur skrá sig í félagsmiðstöðvum eldriborgara og þangað eru þeir sóttir. Ferðir þessar er farnar í samstarfi við Hópbíla hf. og hafa Olíufélagið Esso ehf. og VÍS styrkt ferðirnar. Viðkomustaðurinn að þessu sinni var Þjóðleikhúsið. Þar tóku  þau Þórhallur Sigurðsson leikstjóri og Ingibjörg Þórisdóttir leikkona á móti hópunum og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Kaffisamsæti var í Þjóðleikhúskjallaranum í boði Lögreglustjórans í Reykjavík. Ýmsar uppákomur voru í ferðunum m.a söng kór Félagsmiðstöðvar Gerðubergs, einsöngur var sunginn, Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri ávarpaði gesti og sagði þeim frá nýju leikverki sem verið var að setja upp og nefnist Virkjunin.  Þórhallur og Ingibjörg lásu úr sögum Jónasar Árnasonar og Eimreiðinni og Þórhallur sagði sögu leikhússins. Síðan var farið um Þjóðleikhúsið og það skoðað, meðal annars stóra sviðið. Í lok hverrar ferðar var farið í bíltúr um höfuðborgina í bifreiðum frá Hópbílum hf., sem sáu um allan aksturinn í ferðunum. Farið yfir  fræðsluefni frá lögreglunni og því dreift til þátttakenda. Alls voru farnar 7 ferðir í ár og voru þátttakendur í ferðunum yfir 500. Lögreglan í Reykjavík vill þakka samstarfsaðilum fyrir gott samstarf svo og Þjóðleikhúsinu fyrir frábærar móttökur.