6 Júní 2007 12:00

Allnokkur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í hádeginu var 19 ára piltur fluttur á slysadeild en sá var illa haldinn eftir að hafa neytt fíkniefna í húsi á Seltjarnarnesi. Skömmu síðar fóru lögreglumenn að hóteli í miðborginni en þar var hálffertug kona í annarlegu ástandi og var hún færð á lögreglustöð. Laust eftir hádegi voru karl og kona á þrítugsaldri handtekin í Breiðholti en þau eru grunuð um fíkniefnamisferli. Í bíl þeirra fannst þýfi.

Um kaffileytið var kona á fimmtugsaldri handtekin í Grafarvogi en í fórum hennar fundust ætluð fíkniefni. Síðdegis var gerð húsleit í austurborginni og þar fundust fíkniefni sem talið er að séu hass og amfetamín en húsráðandi er karl á fimmtugsaldri.

Um níuleytið i gærkvöld var óskað eftir aðstoð lögreglu að húsi í vesturhluta borgarinnar. Þar hafði 16 ára piltur gengið berserksgang en viðkomandi hefur verið í neyslu fíkniefna. Ekki löngu síðar var beðið um læknisaðstoð í Vogahverfi en þar átti líka í hlut 16 ára piltur en sá var með mikla verki og kvartaði sáran. Pilturinn hafði nokkru áður verið í heimsókn hjá kunningjum sem höfðu eggjað hann til að nota fíkniefni.

Þá voru tveir karlmenn um þrítugt handteknir í Breiðholti fyrir miðnætti og fluttir á lögreglustöð. Í bíl þeirra fundust ætluð fíkniefni.