16 Október 2008 12:00

Í morgun handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þrjá menn vegna gruns um að þeir stæðu að framleiðslu fíkniefna. Samtímis voru m.a. gerðar húsleitir á tveimur stöðum í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði þar sem framleiðsla á fíkniefnunum var talin fara fram. Þar var lagt hald á háþróaðan tækjabúnað sem nota má til framleiðslu fíkniefna, efni á framleiðslustigi og efni sem talið er fullunnið amfetamín og/eða methamfetamín. Um er að ræða nokkuð magn efna en um þyngd og styrkleika er ekki hægt að segja á þessari stundu. Við leit í húsnæðinu fundust einnig um 20 kg af hassi.

Samkvæmt mati sérfræðinga, bæði íslenskra og erlendra, er framleiðslugeta þessarar verksmiðju mikil. Til marks um umfangið má geta þess að hinir handteknu fluttu nýverið inn eitt tonn af efni sem nota má til íblöndunar fíkniefna. Mestur hluti þess fannst á framleiðslustöðunum. Ekki er talið að framleiðslan hafi verið lengi í gangi áður en lögreglan lét til skara skríða.

Samfara framleiðslu af þessu tagi er mikil sprengi- og eldhætta. Þess vegna hefur lögreglan fengið hingað til lands, með milligöngu tengslafulltrúa ríkislögreglustjóraembættisins hjá Europol, tvo lögreglumenn frá Europol sem eru sérfræðingar í málum sem þessum og þá sérstaklega í því að taka niður verksmiðjur af þessu tagi. Vegna þessarar miklu hættu hefur lögreglan einnig notið aðstoðar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins enda mikið af hættulegum eiturefnum sem notuð eru við framleiðslu fíkniefna. Húsnæði í næsta nágrenni við framleiðslustaðina var mannlaust í morgun og svo verður meðan talið er að sprengihætta sé fyrir hendi. Sérfræðingar eru að hefjast handa við að fjarlæga efni og tæki úr umræddu húsnæði en talið er að það geti tekið tvo til þrjá daga. Efni og tæki verða síðan vörsluð með öruggum hætti.

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið að rannsókn málsins í nokkra mánuði en að aðgerðunum í morgun komu einnig tollgæslan, sérsveit ríkislögreglustjóra, og eins og áður segir, sérfræðingar frá Europol og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Aðgerðirnar nú í nótt og í morgun, sem leiddu til handtakanna, voru nokkuð umfangsmiklar og að þeim komu á fjórða tug lögreglumanna. Aðgerðinar fólu m.a. í sér húsleitir á nokkrum stöðum samtímis því sem handtökurnar fóru fram.

Þeir sem handteknir voru eru allir íslenskir ríkisborgarar, einn á fertugsaldri en hinir tveir á þrítugsaldri. Allir hafa komið áður við sögu lögreglu, m.a. vegna fíkniefnamála.

Fjórði maðurinn var svo handtekinn á Keflavíkurflugvelli síðdegis en hann var að koma erlendis frá. Um er að ræða Íslending á þrítugsaldri sem áður hefur komið við sögu lögreglu.

Greint var frá málinu á blaðamannafundi á lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Friðrik Smári Björgvinsson, Stefán Eiríksson og Karl Steinar Valsson sitja fyrir svörum.