10 Desember 2008 12:00
Rannsókn á ætlaðri framleiðslu fíkniefna í Hafnarfirði gengur vel. Þrír karlar sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins en tveir þeirra afplána nú dóma vegna annarra mála og sá þriðji er laus úr haldi. Mennirnir voru handteknir 16. október sl. en sama dag voru gerðar húsleitir á tveimur stöðum í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Á báðum stöðunum fannst búnaður sem tengist umræddri starfsemi og var hann haldlagður.
Um er að ræða m.a. frystikistur, rafmagnsviftur, suðutæki, hrærivélar, hitastýringartæki, grammavogir, blandara, bakarofn með hellum, stáltunnur og ýmsan sérhæfðan glerbúnað í miklu magni en slíkur glerbúnaður er jafnan ætlaður fyrir tilraunastofur. Einnig var lagt hald á mikið af íblöndunarefnum og vökvum. Við húsleitirnar tók lögreglan líka í sína vörslu um 18,2 kg af hassi og tæplega 700 grömm af amfetamíni. Jafnframt var lagt hald á liðlega 3.500 millilítra af BMK, sem er þekkt upphafsefni og/eða milliefni í framleiðslu amfetamíns eða metamfetamíns, og 38 kg af P-2-NP sem er efni sem er notað í sama tilgangi.
Tveir fulltrúar frá Europol komu gagngert til landsins til að aðstoða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. Annar þeirra sagði á blaðamannafundi lögreglunnar um málið að aðstaðan og búnaðurinn í Hafnarfirði væri með því fullkomnasta sem hann hefði séð en umræddur fulltrúi Europol hefur áralanga reynslu á þessu sviði. Hann sagði jafnframt að þeir sem stæðu að hinni ætluðu framleiðslu væru kunnáttumenn en hér væri um að ræða bæði háþróaða og tæknilega framleiðslu.
Meðfylgjandi eru þrjár myndir sem tengjast málinu en tvær þeirra voru teknar á vettvangi.