14 September 2012 12:00
Karl á fimmtugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. september að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Maðurinn var handtekinn eftir að lögreglan fann búnað og efni til framleiðslu fíkniefna í bílskúr í Langholtshverfinu síðdegis í gær. Unnið hefur verið sleitulaust að rannsókn málsins en ljóst er að það er mjög umfangsmikið. Lagt hefur verið hald á verulagt magn af tækjum og efnum í þágu rannsóknarinnar, en í dag hefur lögreglan jafnframt framkvæmt húsleit í Hafnarfirði í tengslum við málið. Við rannsóknina hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notið aðstoðar sérfræðinga frá Háskóla Íslands, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins auk sprengjusérfræðinga frá embætti ríkislögreglustjóra.