4 Desember 2008 12:00
Fíkniefni fundust við húsleit í vesturbæ Reykjavíkur síðdegis í gær. Um var að ræða 20 kannabisplöntur, 20 e-töflur, 30 grömm af hassi og 25 grömm af öðru efni, hvítu. Á sama stað fundust einnig sterar. Við aðgerðina, sem er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna, naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar fíkniefnaleitarhunds frá tollgæslunni. Eftir húsleitina, þegar nýbúið var að yfirgefa vettvang, tók þessi sami hundur á rás og hljóp að manni á þrítugsaldri, sem átti þar leið hjá. Sá reyndist vera með 30 grömm af marijúana í fórum sínum og í kjölfarið var farið til leitar á tveimur öðrum stöðum sem tengjast aðilanum. Á öðrum þeirra fannst enn meira af marijúana, eða rúmlega 100 grömm.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.