29 Maí 2013 12:00

Nokkur fíkniefnamál hafa komið til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Kannabisræktun var stöðvuð í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi, en lagt var hald á tæplega 60 kannabisplöntur. Karl um þrítugt játaði aðild sína að málinu. Nokkrir tugir gramma af amfetamíni fundust við húsleit í íbúð miðborginni, en á sama stað var einnig lagt hald á marijúana og fartölvur. Húsráðandi, kona á þrítugsaldri, var handtekin í þágu rannsóknarinnar og einnig tveir menn sem voru í íbúðinni þegar lögreglan kom á vettvang. Í Háaleitishverfi fundust fíkniefni á þremur stöðum þegar leitað var í ónefndu húsi, en nokkrir karlar á þrítugsaldri voru innandyra þegar bankað var upp á. Í húsinu fór fram sala fíkniefna. Og í gærkvöld var fíkniefnasali handtekinn í Hafnarfirði. Um var að ræða konu á þrítugsaldri, en hún var staðin að verki. Kaupandinn var einnig handtekinn, en í framhaldinu var leitað á heimili konunnar. Þar fundust um 100 grömm af kannabisefnum, sem ætluð voru til sölu. Á heimilinu voru staddir tveir karlar, en þeir voru líka handteknir í tengslum við málið.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.