22 Ágúst 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarið lagt hald á mörg hundruð grömm af kannabisefnum og talsvert magn af amfetamíni í nokkrum aðskildum málum. Um er að ræða aðgerðir gegn sölu og dreifingu fíkniefna og hafa á annan tug manna, bæði karlar og konur, verið handteknir. Lögreglan hefur einnig tekið í sína vörslu peninga, sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Þá var einnig lagt hald á ætlað þýfi. Við húsleitir í áðurnefndum málum var jafnframt lagt hald á nokkuð magn af ritalíni á einum stað og skammbyssu á öðrum.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.