18 Febrúar 2014 12:00
Rúmlega 50 fíkniefnamál hafa komið til kasta Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Lagt hefur verið hald á amfetamín, e-töflur, kókaín og MDMA svo eitthvað sé nefnt, en það eru einkum karlar á þrítugsaldri sem hafa komið við sögu í þessum málum. Rétt er að geta þess að lögreglan hélt úti sérstöku eftirliti um síðustu helgi eftir að grunsemdir vöknuðu í byrjun síðustu viku um að nokkuð magn fíkniefna kynni að vera boðið til sölu næstu daga. Meirihluti málanna átti sér stað í miðborginni.
Nokkrir fíkniefnasalar voru einmitt handteknir í aðgerðum lögreglunnar um helgina, en fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna. Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.