23 Febrúar 2018 18:50

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu stöðvað kannabisræktun á nokkrum stöðum í umdæminu, en í þeirri stærstu var lagt hald á nærri 400 kannabisplöntur. Sú var í iðnaðarhúsnæði í Kópavogi, en þar var einnig að finna um 6 kg af tilbúnum kannabisefnum til sölu. Ræktunin var mjög fullkomin og búnaðurinn eftir því, en lögreglan tók m.a. í sína vörslu gróðurhúsalampa, blásara og straumbreyta í tugatali svo eitthvað sé nefnt. Þrír karlar voru handteknir í þágu rannsóknarinnar. Lögreglan stöðvaði líka kannabisræktun í bílskúr í austurhluta Reykjavíkur, en var þar lagt hald á um 250 kannabisplöntur. Hálft kíló af kannabisefnum fannst einnig í bílskúrnum, en þar var sömuleiðis lagt hald á mikið af búnaði tengt ræktuninni. Einn var handtekinn vegna málsins. Þá voru rúmlega 70 kannabisplöntur haldlagðar þegar ræktun var stöðvuð í fjölbýlishúsi í vesturhluta borgarinnar, en þar var sömuleiðis einn handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Loks lagði lögreglan hald á 1.5 kg af tilbúnum kannabisefnum til sölu, þegar hún framkvæmdi húsleit í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Á sama stað fannst sömuleiðis ætlað kókaín og MDMA, auk fjármuna sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Einn var handtekinn í þágu rannsóknarinnar.

Málin, sem eru óskyld, teljast öll upplýst, en fimm mannanna sem komu við sögu í þeim eru um þrítugt. Sjötti maðurinn sem var handtekinn i þessum aðgerðum er á sextugsaldri.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.