8 Júní 2018 13:32

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu stöðvað kannabisræktun á nokkrum stöðum í umdæminu og jafnframt lagt hald á nokkur kíló af tilbúnum kannabisefnum, auk kókaíns, amfetamíns og MDMA. Í öllum tilvikum var um að ræða íbúðir í fjölbýlishúsum, en einn húsráðenda á þessum stöðum var sömuleiðis með fíkniefni í geymslu í kjallara hússins. Í einni íbúðanna var að finna um 50 kannabisplöntur, 2 kg af kannabisefnum og 60 gr. af amfetamíni. Í annarri var lagt hald á talsvert magn af kókaíni, amfetamíni og MDMA, auk nokkurra tuga kannabisplanta, en barn var búsett á heimilinu og voru fulltrúar barnaverndaryfirvalda kallaðir til vegna þessa. Í þriðju íbúðinni var líka að finna nokkra tugi kannabisplantna sem og allnokkuð af tilbúnu kannabisefni. Svipað átti við um fjórða vettvanginn sem lögreglan mætti á, en þar innandyra var að finna rúmlega eitt kíló af kannabisefnum. Efnin voru afrakstur kannabisræktunar, sem hafði verið klippt niður nokkrum dögum fyrir heimsókn laganna varða. Húsleitirnar voru framkvæmdar í Reykjavík og Kópavogi og var einn handtekinn á hverjum stað.

Málin, sem eru óskyld, teljast öll upplýst, en þrír mannanna sem komu við sögu í þeim eru á fertugsaldri. Fjórði maðurinn sem var handtekinn i þessum aðgerðum er á sextugsaldri.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.