15 Október 2009 12:00

Nokkur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Fyrir hádegi fundust fíkniefni í miðborginni á dvalarstað konu um tvítugt. Konan var handtekin og færð á lögreglustöð en hún var jafnframt eftirlýst fyrir aðrar sakir. Skömmu fyrir hádegi fundust fíkniefni við húsleit í Kópavogi en karl á þrítugsaldri var handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Á sama stað var lagt hald á ýmsa muni sem talið er að séu þýfi. Síðdegis var karl um þrítugt handtekinn í miðborginni en í bíl hans fundust fíkniefni. Í framhaldinu var leitað á heimili mannsins og þar fannst meira af fíkniefnum.