18 Maí 2010 12:00

Þremur hollenskum karlmönnum var í gærkvöld sleppt úr haldi lögreglu en mennirnir voru handteknir í tengslum við fíkniefnamál sem er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þremenningarnir eru allir í áhöfn skips sem kom til hafnar á Seyðisfirði á laugardag en leit var gerð um borð í skipinu. Rannsóknin er unnin í samvinnu við lögregluyfirvöld í Hollandi og tengist haldlagningu á þremur tonnum af marijúana þar í landi. Aðgerðin hér var víðtæk en að henni komu Landhelgisgæslan, lögreglu- og tollyfirvöld á Austurlandi auk lögreglumanna frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra sem og tollvarða frá Tollstjóranum í Reykjavík. Það var að beiðni sýslumannsembættisins á Seyðisfirði sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók við rannsókn málsins.