12 Desember 2008 12:00
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á umfangsmiklu fíkniefnamáli sem kom upp á Seyðisfirði í júní er lokið og hefur það verið sent embætti ríkissaksóknara til meðferðar. Tveir menn, annar á áttræðisaldri en hinn á fimmtugsaldri, sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeir voru fyrst úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðan vegna almannahagsmuna. Eldri maðurinn var handtekinn í júní en sá yngri í júlí. Rannsókn málsins var mjög viðamikil en að henni komu lögregluyfirvöld í fimm löndum og einnig Europol.
Í umræddu máli fannst mikið magn fíkniefna í sérútbúnum húsbíl sem kom til landsins með ferjunni Norrænu. Um var að ræða 190 kg af hassi, 1,6 kg af marijúana og 1,3 kg af kókaíni.