30 Apríl 2010 12:00
Fimm manns, fjórir karlar og ein kona, hafa verið úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald en þau eru grunuð um aðild á innflutningi kókaíns hingað til lands frá Spáni. Um er að ræða rúmlega 3 kg af mjög hreinu kókaíni. Einn mannanna var úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 7. maí á grundvelli rannsóknarhagsmuna og tveir til 14. maí, annar þeirra sömuleiðis vegna rannsóknarhagsmuna en hinn á grundvelli almannahagsmuna. Hinir, karl og kona, voru úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 28. maí á grundvelli almannahagsmuna. Þrír karlar til viðbótar eru í haldi lögreglu vegna málsins en þeir voru í síðustu viku úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 21. maí á grundvelli almannahagsmuna. Konu, sem var handtekin í síðustu viku og úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald, hefur hinsvegar verið sleppt. Átta manns eru því nú í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn málsins.
Það eru lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem í sameiningu rannsaka málið en hafa við það notið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra, tollyfirvalda og Europol . Rannsóknin er nokkuð umfangsmikil en í tengslum við hana hefur lögreglan framkvæmt allmargar húsleitir en í þeim hefur verið lagt hald á umtalsverða fjármuni sem og skartgripi. Í fyrradag var farið í þrjár húsleitir til viðbótar og fimm manns færðir til skýrslutöku en sleppt að því loknu.