22 Maí 2010 12:00

Fjórir karlar hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 18. júní að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og er það gert á grundvelli almannahagsmuna. Mennirnir eru grunaðir um aðild á innflutningi kókaíns hingað til lands frá Spáni. Um er að ræða rúmlega 3 kg af mjög hreinu kókaíni. Rannsókn málsins miðar vel en í tengslum við hana hefur verið lagt hald á tæplega átta milljónir króna í reiðufé og skartgripi að verðmæti um tvær milljónir. Umrædd verðmæti fundust í bankahólfum sem tilheyra málsaðilum. Tveir til viðbótar sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Mennirnir sex eru á ýmsum aldri, sá yngsti er rúmlega tvítugur en sá elsti á sextugsaldri.

Það eru lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem hafa í sameiningu rannsaka málið en hafa við það notið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra, tollyfirvalda og Europol. Rannsóknin er nokkuð umfangsmikil en í tengslum við hana hefur lögreglan framkvæmt allmargar húsleitir en í þeim hefur verið lagt hald á umtalsverða fjármuni sem og skartgripi, eins og að framan greinir.