30 Apríl 2012 12:00
Fjórir karlar hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 14. maí að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Mennirnir, sem allir eru erlendir ríkisborgarar, eru grunaðir um aðild að innflutningi á umtalsverðu magni af fíkniefnum, eða 8,5 kg af amfetamíni. Tveir mannanna kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar.
Mennirnir voru allir handteknir um miðjan mánuðinn, einn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, tveir þegar þeir voru á leið til höfuðborgarinnar og sá fjórði, sem er búsettur hérlendis, við heimili sitt. Þrír mannanna höfðu komið hingað með flugi frá Póllandi sama dag og þeir voru handteknir. Það voru tollverðir á Keflavíkurflugvelli sem komust á snoðir um málið en þeir sýndu mikla árverkni og góð vinnubrögð þegar málið uppgötvaðist. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins en það er unnið í samvinnu við lögregluna á Suðurnesjum og tollyfirvöld.