6 Desember 2011 12:00

Karl á sextugsaldri hefur á grundvelli almannahagsmuna verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 3. janúar  að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um aðild að innflutningi á verulegu magni af fíkniefnum og sterum. Maðurinn hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Fíkniefnin og sterarnir sem um ræðir fundust við leit lögreglu og tollgæslu í gámi sem kom til landsins í október og var maðurinn handtekinn í kjölfarið. Rannsókn málsins hafði staðið yfir í alllangan tíma og verið unnin í samvinnu við tollgæsluna. Karl á fimmtugsaldri er einnig í gæsluvarðhaldi í tengslum við sama mál en sá hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.

Um 10 kg af amfetamíni reyndust vera falin í umræddum gámi sem kom með skipi í Straumsvíkurhöfn. Við leit í gámnum fundust einnig um 200 grömm af kókaíni, rúmlega 8 þúsund e-töflur og verulegt magn af sterum, bæði í töflu- og vökvaformi. Skipið kom hingað frá Rotterdam í Hollandi.