30 Apríl 2013 12:00

Karlmaður frá Litháen hefur verið handtekinn á nýjan leik í tengslum við fíkniefnamál, sem er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en hann reyndi að brjóta gegn farbanni. Maðurinn, sem er um þrítugt, var handtekinn í byrjun mars, en þá var jafnframt lagt hald á 500 grömm af ætluðu kókaíni. Litháinn sat í gæsluvarðhaldi til 22. mars og var í framhaldinu úrskurðaður í farbann. Í gær ætlaði maðurinn að fara úr landi og hafði keypt sér farmiða til Færeyja og hugðist síðan halda þaðan til Bretlands, en þar er Litháinn búsettur. Hann var hins vegar stöðvaður við landamæravörslu og hefur nú aftur verið úrskurðaður í varðhald, að þessu sinni til 28. maí.

Um tíma sat Lithái á fimmtugsaldri einnig í gæsluvarðhaldi í tengslum við sama mál, sem og Íslendingur á þrítugsaldri. Þess má geta að rannsókn málsins er á lokastigi.