11 Nóvember 2010 12:00

Karl á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 25. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn, sem er erlendur ríkisborgari og var handtekinn um miðja síðustu viku, er grunaður um aðild að máli sem er til rannsóknar hjá lögreglu og snýr að ætlaðri framleiðslu fíkniefna, sölu þeirra og dreifingu. Fjórir aðrir karlar, sem sátu í gæsluvarðhaldi frá 21. október vegna rannsóknar sama máls, hafa verið úrskurðaðir í farbann til 8. desember. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim rann út í dag en ekki var farið fram á framlengingu þess. Fjórmenningarnir, sem voru handteknir í Reykjavík og Grímsnesi í síðasta mánuði, eru sömuleiðis allir erlendir ríkisborgarar. Þeir eru á þrítugs- og fertugsaldri.

Eins og fram hefur komið voru framkvæmdar fimm húsleitir í þágu rannsóknar áðurnefnds máls í Reykjavík, Reykjanesbæ og Grímsnesi. Lagt var hald á amfetamín og kókaín og um 2 kg af marijúana auk fjármuna, eða um 6 milljónir króna í reiðufé sem er álitið að sé afrakstur fíkniefnasölu. Lögregla tók einnig í sína vörslu ýmis önnur verðmæti sem og hluti sem taldir eru tengjast ætlaðri brotastarfsemi. Við áðurnefndar aðgerðir naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar lögregluliðanna á Selfossi og Suðurnesjum auk lögreglumanna frá embætti ríkislögreglustjóra.