20 Febrúar 2023 18:33

Þrír karlar voru fyrir helgina í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar sem snýr að framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Í tengslum við málið hefur verið lagt hald á bæði fjármuni og fíkniefni við húsleitir í umdæminu, eða 20 m.kr. bankainnistæður, 7 kg af amfetamíni og 40 kg af marijúana, auk annarra fíkniefna sem og frammistöðubætandi efna. Fimm voru upphaflega handteknir í þessum aðgerðum í síðustu viku gegn skipulagðri brotastarfsemi og fjórir þeirra voru síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknarinnar, en ekki var krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir einum mannanna. Rannsókn málsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur, en m.a er til skoðunar hvort einhverjir mannanna hafi komið gagngert til Íslands þessara erinda, þ.e. að standa að framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna.

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.