1 Júní 2007 12:00

Karlmaður um fertugt var handtekinn í austurborginni í gærkvöld en hann er grunaður um fíkniefnasölu. Í híbýlum hans fundust um 100 grömm af ætluðu hassi. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu vegna fíkniefnamála. Í sama borgarhluta stóðu lögreglumenn þrjá pilta að verki þar sem fíkniefnaviðskipti áttu sér stað. Piltarnir voru handteknir og lítilræði af marijúana var haldlagt. Lögreglan stöðvaði tvo aðra pilta um tvítugt í austurborginni í gærkvöld en báðir voru með smáræði af fíkniefnum í fórum sínum.

Í nótt var 18 ára piltur tekinn á Kringlumýrarbraut en í bíl hans fundust nokkur grömm af ætluðu hassi. Pilturinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Þá fannst töluvert af riffilskotum í íbúð í miðborginni en þangað hafði lögreglan komið til að leita fíkniefna.