19 Janúar 2016 10:35

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu framkvæmt húsleitir á mörgum stöðum í Hafnarfirði og lagt hald á talsvert af kannabisefnum, m.a. tugi kannabisplantna á ýmsum stigum ræktunar, og enn fremur ætlað amfetamín. Þá hefur lögreglan tekið í sína vörslu nokkuð af búnaði sem fylgir starfsemi af þessu tagi. Karlar hafa komið við sögu í öllum þessum málum, flestir á fertugsaldri, en sá elsti í hópnum er á sjötugsaldri.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.