29 Júlí 2016 13:18

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvær kannabisræktanir í Hafnarfirði í vikunni og lagði hald á samtals um 300 kannabisplöntur. Önnur ræktunin var í íbúðarhúsi í bænum, en hin í iðnaðarhúsnæði og voru þær nokkuð umfangsmiklar eins og að framan greinir. Lagt var hald á töluvert af búnaði sem tengdist starfseminni á báðum stöðunum. Einn var handtekinn í tengslum við rannsóknina á kannabisræktuninni í iðnaðarhúsnæðinu og játaði viðkomandi sök, en rannsókn málsins er langt komin. Skýrslutökum í hinu málinu er hins vegar ólokið, en þar var kannabisræktun í tveimur herbergjum hússins. Þessu til viðbótar handtók lögreglan sölumann fíkniefna í Hafnarfirði, en við húsleit á heimili hans í bænum var lagt hald á kannabisefni og e-töflur. Þar var einnig að finna fjármuni, sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu, dreifingu og framleiðslu fíkniefna, en lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.