12 Október 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun á tveimur stöðum í Hafnarfirði í gær og í fyrradag. Lagt var hald á samtals um 100 kannabisplöntur á lokastigi ræktunar. Auk þessa hafði lögreglan afskipti af á annan tug manna í Hafnarfirði á sama tímabili, en einnig var um að ræða aðgerðir í tengslum við fíkniefni. Til viðbótar við fyrrnefndar kannabisplöntur var jafnframt lagt hald á meira en hálft kg af marijúana og líka eitthvað af öðrum fíkniefnum. Þeir sem komu við sögu lögreglu í þessum fíkniefnamálum eru allt karlar, en flestir þeirra eru á þrítugsaldri. Tveir þeirra hafa játað sölu fíkniefna.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.