8 Ágúst 2016 18:59

Nokkur fíkniefnmál komu til kasta Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku, en hún stöðvaði m.a. kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Garðabæ og lagði hald á rúmlega 70 kannabisplöntur. Í Hafnarfirði fundust kannabisefni við leit í bifreið og í óskyldu máli var lagt hald á kannabisefni við húsleit annars staðar í bænum. Húsráðandi játaði aðild að málinu, en efnin voru ætluð til sölu. Á sama stað var enn fremur lagt hald á nokkuð af fjármunum, sem lögreglan telur vera tilkomna vegna fíkniefnasölu.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu, dreifingu og framleiðslu fíkniefna, en lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.