4 September 2008 12:00

Allnokkuð af fíkniefnum fannst við eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Lagt var hald á um 250 grömm af kókaíni í íbúð í miðborginni. Þrír karlar, tveir á fimmtugsaldri og einn á fertugsaldri, voru í íbúðinni þegar lögreglan kom þangað til húsleitar og voru þeir allir handteknir. Kókaínið var ætlað til sölu.

Á Laugavegi var karl á sextugsaldri stöðvaður en sá var með um 15 grömm af fíkniefnum í fórum sínum, mestmegnis amfetamín. Í vesturbæ Reykjavíkur voru höfð afskipti af karli á líkum aldri en sá hafði meðferðis ámóta magn af fíkniefnum og var sömuleiðis aðallega um amfetamín að ræða. Í Árbæ voru tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fimmtugsaldri, teknir fyrir fíkniefnamisferli en í bíl þeirra var falið bæði hass og amfetamín, samanlagt um 35 grömm. Þá fannst lítilræði af amfetamíni í húsi í Kópavogi.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en við þær naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu liðsinnis lögreglumanna frá Norðurlandi.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.