14 Maí 2013 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi húsleit á fjórum stöðum í austurborg Reykjavíkur á föstudag og lagði hald á fíkniefni og fjármuni. Kannabisræktun var stöðvuð í íbúð fjölbýlishúss, en lagt var hald á tæplega 70 kannabisplöntur, auk tugi gramma af tilbúnum kannabisefnum. Ræktunin var í tveimur herbergjum íbúðarinnar, en barn var á heimilinu. Karl á þrítugsaldri var handtekinn í tengslum við málið. Í íbúð í öðru fjölbýlishúsi fannst verulegt magn af amfetamíni. Tveir karlar, annar á þrítugsaldri og hinn á fertugsaldri, voru handteknir í þágu rannsóknarinnar, en mennirnir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu. Þá fundust nokkur hundruð grömm af tilbúnum kannabisefnum í bílskúr. Maður á fertugsaldri var handtekinn í tengslum við málið, en fíkniefni fundust jafnframt í fórum hans. Einnig var leitað á heimili mannsins og þar var lagt hald á umtalsverða fjármuni, sem taldir eru vera afrakstur fíkniefnasölu. Maðurinn hefur áður komið við sögu hjá lögreglu.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.