7 Apríl 2008 12:00

Allmörg fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á föstudag og um helgina. Á föstudag fundust ætluð fíkniefni við húsleit í Kópavogi. Á sama stað fannst einnig þýfi og var því komið aftur í réttar hendur. Þrír piltar um tvítugt voru handteknir vegna rannsóknar málsins. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði. Sama dag var bíll stöðvaður á Miklubraut en farþegi í honum var með hass í fórum sínum. Á föstudagskvöld veittu lögreglumenn athygli bíl í miðborginni. Í farangursgeymslu hans reyndust vera um 130 grömm af því sem talið er vera marijúana. Umráðamaður bílsins, hálfþrítugur karl, var handtekinn. Skömmu síðar var karl á svipuðum aldri handtekinn á öðrum stað í miðborginni en sá var líka með ætlað marijúana í fórum sínum.

Aðfaranótt laugardags var 17 ára piltur stöðvaður í Háaleitishverfi en sá var með ætlað kókaín í fórum sínum. Pilturinn var færður á lögreglustöð en þangað var hann sóttur af móður sinni nokkru síðar. Um svipað leyti hafði lögreglan afskipti af 19 ára pilti í sama hverfi en sá var með ætlað afmetamín í fórum sínum. Á laugardagskvöld handtók lögreglan karl um þrítugt en sá hafði látið ófriðlega á öldurhúsi í miðborginni. Við öryggisleit á manninum fundust bæði ætluð fíkniefni sem og hnífur.

Og í nótt var tæplega þrítugur karl handtekinn í miðborginni fyrir fíkniefnamisferli. Sá var með nokkrar neyslupakkingar í fórum sínum en talið er að um sé að ræða amfetamín.