31 Mars 2009 12:00

Nokkur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og nótt. Við sögu komu fimm karlar en þeir voru allir teknir í Reykjavík, tveir í miðborginni, tveir í Laugardal og einn í Grafarvogi. Í fórum fjögurra þeirra fundust ætluð fíkniefni en sá fimmti var undir áhrifum fíkniefna. Sá síðasttaldi var stöðvaður við akstur í Laugardal en farþegi í bílnum var með fíkniefni í fórum sínum.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.