30 Október 2008 12:00

Allnokkuð af fíkniefnum fannst við eftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld. Við húsleit í söluturni í Reykjavík fundust ætluð fíkniefni, ólöglegt tóbak og munir sem taldir eru vera þýfi. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði en aðgerðin var framkvæmd í samvinnu við tollyfirvöld. Á nokkrum öðrum stöðum í borginni handtók lögreglan samtals fjóra karla og eina konu, sem öll eru grunuð um fíkniefnamisferli, en við það naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu liðsinnis lögreglumanna frá Norðurlandi. Við þær aðgerðir, sem eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna, fannst um hálft kíló af marijúana, talsvert af hassi, neysluskammtar af kókaíni og nokkrar e-töflur. Þá lagði lögreglan jafnframt hald á rafbyssu og kylfu.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.