29 Maí 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun og lagði hald á tilbúin kannabisefni á nokkrum stöðum í austurborginni í gær. Um var að ræða samtals 400 kannabisplöntur á lokastigi ræktunar og vel á annað kíló af tilbúnum kannabisefnum en verðmæti þess síðarnefnda er hátt í 10 milljónir króna. Sex karlar á þrítugs- og fertugsaldri voru handteknir í tengslum við þessi óskyldu mál sem öll teljast upplýst. Mennirnir hafa flestir, ef ekki allir, áður komið við sögu hjá lögreglu.

Fíkniefnin fundust við húsleitir á fimm stöðum en á þremur þeirra var að finna gróðurhúsalampa í tugatali sem og ýmsan búnaði sem tengist starfsemi sem þessari. Á einum staðnum var sömuleiðis að finna þýfi og var það líka tekið í vörslu lögreglu. Til viðbótar þessu stöðvaði lögregla ökumann á þrítugsaldri í austurborginni í gær. Í bíl hans fundust 50 grömm af kannabisefnum sem voru ætluð til sölu. Þess má geta að í síðustu viku var gerð húsleit hjá sama manni og þá fundust 300 grömm af fíkniefnum, mestmegnis kannabisefni.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.