13 Janúar 2011 12:00

Talsvert af fíkniefnum fannst við húsleit í íbúð í miðborginni í nótt en þangað fór lögreglan eftir að hafa borist kvörtun undan hávaða. Innandyra voru þrír karlar í miður góðu ástandi og voru þeir allir handteknir og fluttir í fangageymslu en í íbúðinni voru greinileg merki um fíkniefnaneyslu. Við frekari leit fundust fíkniefni, m.a. amfetamín, hass og marijúana, en talið er að þau hafi verið ætluð til sölu. Á sama stað var einnig lagt hald á muni sem grunur leikur á að séu þýfi. Þremenningarnir, tveir á fertugsaldri og einn um fimmtugt, hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu.