17 Desember 2007 12:00
Allmörg fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Farið var í tvær húsleitir í miðborginni en í báðum tilvikum fundust ætluð fíkniefni. Á öðrum staðnum var samkvæmi í gangi þegar knúið var dyra og þar voru allnokkrir gestir en þrír þeirra, sem allir eru á þrítugsaldri, eru grunaðir um fíkniefnamisferli. Í Laugardalshverfi stöðvaði lögreglan bíl en farþegi í honum reyndist hafa ætluð fíkniefni í fórum sínum. Í framhaldinu var leitað heima hjá viðkomandi, sem er tæplega fimmtugur, og þar fannst meira af fíkniefnum og einnig þýfi. Í sama hverfi var annar bíll stöðvaður en í honum voru karl og kona á fertugsaldri. Í bílnum og síðar á dvalarstað fólksins fundust ætluð fíkniefni sem talið er að séu hass og amfetamín. Í Hlíðunum fundust sömuleiðis fíkniefni sem talið eru að séu hass og amfetamín en sá sem var með þau í fórum sínum er karl um fertugt. Tæplega þrítug kona var handtekin á Austurvelli en hún var með marijúana í veski sínu og á öðrum stað í miðborginni stöðvaði lögreglan för karls á sextugsaldri en sá er grunaður um fíkniefnamisferli. Þá voru tveir karlar á fertugsaldri handteknir í Hafnarfirði um helgina. Heima hjá öðrum þeirra fannst ætlað amfetamín við húsleit en hinn, sem var stöðvaður á bíl sínum, hafði falið kókaín í öskubakkanum. Fíkniefnaleitarhundar voru notaðir við nokkur þeirra mála sem hér eru nefnd og enn og aftur sönnuðu þeir gildi sitt.