11 Júní 2007 12:00

Piltur um tvítugt var handtekinn í einu úthverfa borgarinnar á laugardagskvöld en í fórum hans fundust ætluð fíkniefni. Um var að ræða nokkurt magn en efnið var í neysluskömmtum. Í framhaldinu var leitað í híbýlum piltsins og þar fannst dálítið af fjármunum.

Fleiri fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en á laugardag fannst einnig lítilræði af fíkniefnum í íbúð í miðborginni. Í sama hverfi voru höfð afskipti af karli á sextugsaldri á föstudagskvöld en sá er grunaður um fíkniefnamisferli.

Í fyrrinótt var karl á þrítugsaldri handtekinn í miðborginni en sá hafði ógnað gestum á skemmtistað. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð en í fórum hans fundust ætluð fíkniefni.