24 Nóvember 2010 12:00

Fíkniefni fundust við húsleit í Kópavogi í fyrradag en um var að ræða 50 grömm af marijúana og ámóta magn af hassi. Hluti fíkniefnanna fannst utandyra og þá lagði lögreglan einnig hald á 300 þúsund krónur í reiðufé sem var falið undir rúmdýnu í húsinu. Húsráðandi var handtekinn í þágu rannsóknarinnar og játaði hann aðild sína að málinu en upphaf þess var að lögreglan grunaði þrjá menn um fíkniefnamisferli. Þeir voru á ferð í bíl í bænum en reyndu að komast undan þegar átti að hafa tal af þeim. Þremenningunum var veitt eftirför sem síðar leiddi til áðurnefndrar húsleitar hjá umráðamanni ökutækisins. Mennirnir eru allir á þrítugsaldri.